Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. apríl 2021
• Lýðræðisbarátta – og sjálfstæðisbarátta – okkar tíma snýst um að verja innviði og auðlindir þjóða gagnvart ásælni erlends valds. Þetta verkefni snýst um að verja grunnstoðir velsældar og almannahags.
• Á slíkum tímum höfum við þörf fyrir sjálfstæða einstaklinga og sjálfstæða hugsun. Annars getum við ekki verið sjálfstæð þjóð.
• Sem sjálfstætt ríki á Ísland að vera fullgildur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi eftir því sem við á og hafa rödd, en ekki vera þögull og óvirkur farþegi eða strengjabrúða.
• ESB byggist ekki á grunni hefðbundins þjóðréttarlegs samstarfs, heldur gefur sig út fyrir að vera „sérstaks eðlis“ (sui generis). Reynslan hefur sýnt að smáþjóðir hafa þar lítil sem engin áhrif.
• Sem fullvalda ríki á Ísland ekki að leyfa erlendum ríkjum, ríkjasamböndum eða stórfyrirtækjum að ráðskast með innri málefni íslenska lýðveldisins.
• Lýðræðislega kjörnir fulltrúar eiga sjálfir að mæta þeirri ábyrgð og valdi sem þeim hefur verið falið, ekki afhenda hlutverk sitt embættismönnum sem svara ekki til lýðræðislegrar ábyrgðar.
• Allt vald þarf að tempra, embættisvaldið ekki síst.
• Virða ber sérhvern mann og meta út frá orðum hans og athöfnum, en ekki á grundvelli útlitseinkenna, kynferðis, kynhneigðar o.fl.
• „Merkimiðastjórnmál“ (e. identity politics) bjóða þeirri hættu heim að menn taki sér siðferðilegt vald yfir öðrum, brennimerki fólk eins og sauðfé, útiloki og dragi menn í dilka sem „seka“ og „saklausa“, þar sem sérvöldum einkennum er beitt til alhæfinga, ásakana og sakfellinga. (Saga 20. aldar ætti að hafa kennt okkur að varast fólk sem talar á síðastnefndum forsendum).
• Lýðræðið grundvallast á því að sérhver einstaklingur sé metinn að verðleikum, en ekki sem hluti af hópi.
• Lýðræðið hvílir á þeirri forsendu að við verjum klassískt frjálslyndi, sem viðurkennir málfrelsi, fundafrelsi og frelsi til skoðanaskipta, þ.m.t. frelsi okkar og getu til að skipta um skoðanir.
• Klassískt frjálslyndi ber að verja gagnvart ógn gervifrjálslyndis, sem misvirðir grundvöll vestræns lýðræðis. Gervifrjálslyndi virðir ekki einstaklinginn, heldur einblínir á hópa og ýtir þannig undir hjarðhegðun. Gervifrjálslyndi treystir ekki dómgreind einstaklingsins en vill að sérvalinn hópur stjórni, ritskoði og hafi eftirlit.
• Klassískt frjálslyndi byggist á því að menn njóti frelsis en séu um leið kallaðir til ábyrgðar. Það byggir á því að menn hugsi sjálfstætt en láti ekki aðra hugsa fyrir sig – ofurselji sig ekki tilbúinni hugmyndafræði.
• Við eigum að virða – ekki misvirða – ákvæði stjórnarskrár um lýðræði og klassískt frjálslyndi.
• Við eigum að virða – ekki misvirða – ákvæði alþjóðlegra sáttmála um neitunarvald Íslands og sjálfstæði gagnvart öðrum þjóðum.
• Við eigum að virða – ekki misvirða – lýðræðislegan grunn íslenskra laga um skilyrði aðildar Íslands að EES og Mannréttindasáttmála Evrópu.
• Við eigum að virða – ekki misvirða – ákvæði laga um frelsi einstaklingsins og ábyrgð í siðmenntuðu samfélagi.
• Embættismenn hafa ekkert umboð til þess að ganga gegn eða breyta þeim lýðræðislegu forsendum sem að framan eru nefndar. Sú freisting er ávallt til staðar og því rétt og skylt að viðhalda vökulli varðstöðu gegn því að menn seilist ótilhlýðilega til valds og áhrifa.
• Ef menn vilja veikja þær stoðir sjálfstæðis sem persónufrelsið, stjórnarskráin, almenn lög og aðild Íslands að alþjóðasáttmálum hvíla á er lágmarkskrafa að slíkt fari fram fyrir opnum tjöldum, en ekki í bakherbergjum.
• Meðan við viljum vera sjálfstæð þjóð verðum við að axla ábyrgð á eigin hagsmunum, tilveru okkar og frelsi.