Rit þetta hefur að geyma sjö sjálfstæðar greinar þar sem rætt er um lagahugtakið út frá ýmsum hliðum. Tekin eru til umfjöllunar atriði sem varða hagsmuni almennra borgara og samfélagsins í heild, því þótt lögfræðingar beri ríka ábyrgð á lögum og lagaframkvæmd eru lögin ekki alfarið á þeirra forræði. Hér koma til skoðunar álitamál um tengsl laga og siðferðis, um uppruna og markmið laga, um laganám og inntak þess, um hlutverk lögmanna og um gagnrýna hugsun, svo nokkuð sé nefnt. Bókin er ætluð öllum sem áhuga hafa á lögum sem samfélagslegu fyrirbæri.
Arnar Þór Jónsson er lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Hann hefur meðal annars starfað sem hæstaréttarlögmaður, sinnt lögfræðistörfum í stjórnsýslunni og ritstýrt lögfræðitímariti, auk þess að hafa gegnt dómstörfum. Arnar hefur flutt fjölda erinda um efni bókarinnar bæði hérlendis og erlendis.
Lögin eiga sér samfélagslegar rætur og þjóna samfélagslegum tilgangi. Umfjöllun um lög og lögfræði verður því ekki slitin úr samhengi við umhverfið og samtímann. Greinarnar sem bók þessi geymir miða að þeim tilgangi að hvetja lesandann til umhugsunar um lögin í þessu samhengi. Jafnframt geta greinarnar þjónað tilgangi sem innlegg í almenna og vonandi lifandi umræðu um lögin í heimspekilegu, pólitísku og siðrænu samhengi.