Hundarnir, myndasafn, sřningar, ŠttbŠkur...Kettirnir, myndasafnUm Brynju og fjölskylduSkrifa­u endilega Ý gestabˇkina!Ţmsar greinar eftir BrynjuMinning um fallna vini┴hugaver­ir tenglar  

Gelding – ófrjósemisaðgerð

Ófrjósemisaðgerðir eru nokkuð algengar á hundum, sem ekki eru ætlaðir til ræktunar, en þó ekki jafn algengar hér á landi og víða erlendis.

Í Bretlandi og víðast á Norðurlöndunum er það til dæmis frekar regla en undantekning að gelda heimilishunda. Leitar- og hjálparhundar eru undantekningalaust geltir, enda væri ómögulegt að leyfa kynhvötinni að trufla einbeitingu hundanna við vinnu.

Margt mælir með geldingu gæludýra og sumir telja að best sé að gera ófrjósemisaðgerðir á tíkum mitt á milli lóðaría, meðan hormónastarfsemi tíkarinnar er í góðu jafnvægi. Þeir sem halda þessu fram, telja að það ástand sem tíkin er í þegar hún fer í aðgerðina, viðhaldist um ókomin ár. Sjálf hef ég góða reynslu af því að hafa látið gera ófrjósemisaðgerð á boxertíkinni minni á þessum tíma, en hvort tímasetningin skipti máli, veit ég ekki.

Allir dýralæknar hér á landi hafa reynslu af aðgerðum af þessu tagi og þær eru einfaldari en flesta grunar.

Sýningar og próf
Geltir rakkar mega taka þátt í keppni ungra sýnenda og hlýðni- og sporaprófum á vegum HRFÍ.

Hinsvegar er ekki hægt að sýna þá á hundasýningum HRFÍ.

Geltur fuglahundur (úr tegundahópi 7) má, samkvæmt núgildandi reglum, ekki taka þátt í veiðiprófum á vegum félagsins.

Mér finnst afstaðan gagnvart veiðihundum furðuleg, enda sé ég ekki samhengi milli veiða/veiðiprófa og þess hvort eistu hunds eru enn á sínum stað.

Ég skil vel að ekki megi sýna geldinga, enda snúast sýningar um ræktunardóma og dómarar þurfa meðal annars að ganga úr skugga um að bæði eistu rakka séu af réttri stærð og liggi niðri í pung.

Sjálfri þætti mér þó í fínu lagi að bæta við flokki geldinga á sýningum félagsins, líkt og gert er á kattasýningum, en deili þeirri skoðun víst með fáum.

Tík sem farið hefur í ófrjósemisaðgerð, getur, samkvæmt því sem ég best veit, tekið þátt í sýningum og öllum veiði- og vinnuprófum á vegum HRFÍ.

Aðgerðin sjálf
Gelding rakka er ákaflega einföld aðgerð, sem tekur stutta stund og er gerð í svæfingu. Aðgerðin felst í því að eistun eru fjarlægð úr pungi og er hundurinn yfirleitt orðinn hress nokkrum klukkustundum eftir aðgerð.

Þess þarf að gæta að hann nagi ekki saumana og til að varna því fær hann skerm sem hafður er yfir höfðinu í nokkra daga.

Ófrjósemisaðgerð á tíkum er örlítið viðameiri en gelding rakka. Hún er þó ekki alvarlegri en svo að tík hoppar yfirleitt auðveldlega inn í bíl eftir aðgerðina og hegðar sér eðlilega eftir að heim er komið. Skermur er þó hafður yfir höfði hennar í nokkra daga til að varna því að hún nagi saumana.

Feldur hunda getur breyst eftir ófrjósemisaðgerð, en það fer eftir hundategundum. Feldur griffon-hunda breytist til dæmis ekki við aðgerð af þessu tagi, en ég hef heyrt að feldur spaniel-hunda geti breyst og orðið erfiðari viðureignar.

Margar góðar greinar eru til á íslensku um ófrjósemisaðgerðir og geldingar og ég mæli með ítarlegri grein á vefsíðu Dýralæknastofunnar í Garðabæ: www.dyralaeknastofan.is


© Halastjörnu-ræktun. Allur réttur áskilinn.
Vinsamlegast virðið höfundarrétt og getið heimilda ef þið notið efni af síðunni.
Ef þú rekst á mynd sem varin er af höfundarrétti, vinsamlegast tilkynntu okkur það og við fjarlægjum myndina eins fljótt og auðið er.
Ef þú hefur ábendingar um það sem betur mætti fara á síðunni okkar, þiggjum við góðar ábendingar með þökkum.
Vefsíða: Anja B. Kristinsdóttir