Hundarnir, myndasafn, sřningar, ŠttbŠkur...Kettirnir, myndasafnUm Brynju og fjölskylduSkrifa­u endilega Ý gestabˇkina!Ţmsar greinar eftir BrynjuMinning um fallna vini┴hugaver­ir tenglar  

Griffon
Útlit og eiginleikar

Griffon-hundar eru býsna fjölbreytilegir í útliti, en eiga það allir sameiginlegt að minna svolítið á apa. Stutt og breitt trýnið, ásamt stórum, kringlóttum augum gera að verkum að þeir hafa nánast mannlega (eða apalega) ásjónu. Þeir eru ræktaðir snögghærðir og stríhærðir, og hjá FCI eru viðurkennd þrjú litaafbrigði.

Griffon Bruxellois: Stríhærður rauður.
Griffon Belge: Stríhærður, einlitur svartur eða svartur og brúnn (black & tan).
Petit Brabançon: Snögghærður, rauður, svartur eða svartur og brúnn (black & tan).

Stundum fæðast griffon-hundar sem ekki eru með þann feldlit sem FCI viðurkennir, til dæmis flekkóttir, eða brúnir og gylltir (brown & tan). Þeir teljast ekki æskilegir í ræktun og eiga ekki framtíð fyrir sér í sýningahringjum, en geta hinsvegar verið dásamlegir heimilishundar.

Griffon telst til smáhunda og í ræktunarmarkmiði er miðað við að hann sé 3,5 – 6 kg. að þyngd. Griffon-hundar geta þó bæði verið léttari og þyngri, en æskilegt er að miða við að ræktunarhundar séu innan þessara þyngdarmarka. Athyglisvert er að í ræktunarmarkmiði tegundarinnar er sérstaklega tekið fram að griffon eigi að vera þyngri en hann lítur út fyrir að vera.

Hændur að eiganda sínum
Griffon-hundar tilheyra tegundahópi 9 hjá FCI og eru í hópi þeirra fjölmörgu smáhunda sem ræktaðir eru fyrst og fremst til að veita eigendum sínum félagsskap og gleði. Eitt helsta einkenni griffon-hunda er hversu hændir þeir eru að eigendum sínum. Þeir mega helst ekki af þeim sjá og ef eigandi bregður sér af bæ er honum fagnað óstjórnlega þegar hann birtist aftur í dyragættinni.

Þessi takmarkalausa og skilyrðislausa ást á eigandanum er í flestum tilvikum afar ánægjuleg, en getur orðið vandamál ef hundurinn er ekki vaninn á það frá unga aldri að umgangast annað fólk og treysta því.

Enginn munur ætti að vera á geðslagi griffon-hunda eftir feldlit eða hárafari, en til eru þeir sem segja að stríhærðu hundarnir séu hlédrægari og þeir snögghærðu kátari.

Geltir
Griffon er fjörmikill og uppátektasamur smáhundur með talsvert vakteðli. Það þýðir að hann geltir og lætur til dæmis vita af mannaferðum í kringum heimili sitt. Líkur á gelti aukast ef fleiri hundar eru á heimilinu, enda hafa hundar gaman af „kórsöng”.

Griffon er léttur í lund og honum semur sérlega vel við önnur dýr, enda friðarsinni frá náttúrunnar hendi.

Fer úr hárum
Snögghærðir griffon-hundar fara úr hárum eins og önnur loðin dýr, en þó ekki í miklum mæli. Stríhærðu hundana þarf að reita (snyrta) reglulega og falla feldhár þeirra því öll í kringum snyrtiborðið, ýmist heima hjá hundinum, eða á snyrtistofu, allt eftir því hvar þeir eru reittir.

Heilbrigður
Griffon telst vera heilbrigð hundategund og arfgengir sjúkdómar herja ekki alvarlega á tegundina, þótt vissulega séu einstaka dæmi um augnsjúkdóma og sjúkdóma í liðum. Sjúkdómar sem greinst hafa í griffon-hundum eru cataract, PRA og hnéskeljalos, auk þess sem einstaka hundur hefur greinst með mjaðmalos, án þess að það virðist há griffon, enda eru þetta afar léttbyggðir hundar.

Með reglulegum læknisskoðunum og eftirliti er unnt að halda ræktunarstofninum heilbrigðum.

Ólík systkini
Mörgum kemur á óvart að snögghærðir og stríhærðir griffon-hundar teljist til sömu tegundar, enda er útlitsmunurinn verulegur. Stutta og breiða trýnið virðist vera enn styttra og breiðara á stríhærðum hundum en þeim snögghærðu, enda hylur gróskumikið skeggið megnið af trýni stríhærðu hundana.

Víðast í heiminum eru ólík afbrigði griffon-hunda pöruð saman til að auka fjölbreytileika, enda deila öll afbrigðin sama ræktunarmarkmiði hjá FCI. Gotsystkini geta því verið býsna ólík í útliti. Eina undantekningin er þegar tveir snögghærðir hundar eru paraðir: Þá verða allir hvolparnir snögghærðir, en feldlitur getur erfst frá forfeðrum aftan úr ættum og því er ávallt spennandi að sjá hvernig hvolparnir líta út þegar þeir koma í heiminn.

Vissulega er þó hægt að spá fyrir um útlit þeirra að einhverju leyti, ef menn þekkja vel til forfeðra ræktunarhundanna sinna.


© Halastjörnu-ræktun. Allur réttur áskilinn.
Vinsamlegast virðið höfundarrétt og getið heimilda ef þið notið efni af síðunni.
Ef þú rekst á mynd sem varin er af höfundarrétti, vinsamlegast tilkynntu okkur það og við fjarlægjum myndina eins fljótt og auðið er.
Ef þú hefur ábendingar um það sem betur mætti fara á síðunni okkar, þiggjum við góðar ábendingar með þökkum
Vefsíða: Anja B. Kristinsdóttir