Hundarnir, myndasafn, sřningar, ŠttbŠkur...Kettirnir, myndasafnUm Brynju og fjölskylduSkrifa­u endilega Ý gestabˇkina!Ţmsar greinar eftir BrynjuMinning um fallna vini┴hugaver­ir tenglar  

Hundur eða tík?
Sú spurning sem flestir standa frammi fyrir þegar þeir fá sér hund í fyrsta sinn er hvort þeir eigi að fá sér rakka eða tík.

Enginn getur svarað þessari spurningu annar en sá sem ætlar að búa með hundinum næstu 10-15 árin.

Kostir og gallar fylgja hvoru kyni.

Þeir sem stefna að ræktun kjósa tík fram yfir rakka, en sé um að ræða heimilishund, sem ekki er ætlaður til ræktunar, skiptir í raun litlu máli hvort rakki eða tík er á heimilinu.

Tík
Tíkur hafa venjulega blæðingar tvisvar á ári, í um þrjár vikur í senn og á þeim tíma eru þær frjóar. Þá er talað um að þær séu lóða. Á þeim tíma geta þær skilið eftir blóðbletti þar sem þær setjast eða leggjast. Sumar tíkur þrífa sig mjög vel á þessum tíma, en aðrar skilja eftir sig slóð hvar sem þær fara.

Eigendur þurfa að gæta tíkarinnar mjög vel á lóðaríi, enda hafa tíkur enga tilfinningu fyrir siðferði, hreinræktun, ættbókum eða siðareglum ræktenda.

Þær velja þar af leiðandi ekki maka „af skynsemi“ eins og ræktandi myndi gera. Sá sem á hreinræktaða tík vill síst af öllu sitja uppi með hóp af blendingshvolpum sem fáir vilja taka að sér, jafnvel enginn.

Sá sem á hreinræktaða og ættbókarfærða tík ætti aldrei að leyfa sér þá hugsun að „náttúran hafi sinn gang“. Ótölulegur fjöldi óvelkominna blendinga er svæfður á hverju ári og í langflestum tilvikum er ástæðan sú að tíkareigandi gætti ekki nægilega vel að tíkinni sinni meðan hún var lóða. Sjálf tala ég af biturri reynslu hvað þetta varðar.

Tíkur geta verið mjög lúmskar meðan þær eru lóða og þær geta laumast um eins og þjófur um nótt. Þess vegna má segja að halda þurfi tíkum í gjörgæslu á þessum tíma.

Vissulega er atferli tíka misjafnt, en ég tel að það sé ekki bundið við tegund, heldur miklu fremur við einstaklingseðli.

Lóðatík á aldrei að sleppa lausri og í gönguferðum á hún ávallt að vera í taumi.

Tíkur verða oftast lóða í fyrsta sinn um sex mánaða aldur, en dæmi eru um að þær lóði fyrr eða seinna, jafnvel ekki fyrr en um 16 mánaða aldur.

Hundur – rakki
Rakkar hafa ekki fengitíma eins og tíkur, þeir eru alltaf „til í tuskið“ ef lóðatík er nærri. Næmt þefskyn þeirra gerir að verkum að þeir finna lykt af lóðatík, þótt hún búi í hinum enda hverfisins eða jafnvel í öðru sveitarfélagi.

Rakkar geta haft tilhneigingu til að elta lykt af lóðatík og strjúka að heiman til að eltast við náttúruna.

Uppeldi getur haft eitthvað að segja hvað þetta varðar og ennfremur náið samband eiganda og hunds, sem mikilvægt er að byggja upp frá fyrsta degi.

Sá sem á hreinræktaðan og ættbókarfærðan rakka ætti ekki, fremur en tíkareigandi, að leyfa sér þá hugsun að „náttúran hafi sinn gang“ og að hundinum sé þar af leiðandi leyft að eltast við allar lóðatíkur sem koma nálægt honum.

Þess ber að geta að rakki sem hefur einu sinni parað tík, verður að öllum líkindum áhugasamari um lóðatíkur í framtíðinni og gæti þar af leiðandi orðið erfiðari í daglegri umgengni en sá, sem aldrei hefur kynnst þessum þætti tilverunnar.

Pörum hunda og kynlíf manna
Eigendur tíka og rakka þurfa að gæta þess vel að manngera ekki hundana sína, hversu mikla væntumþykju sem þeir bera til hundanna sinna. Kynlíf manna er, eðli málsins samkvæmt, ólíkt pörun hunda.

Hundar hafa vissulega ríka kynhvöt, enda er hún ein af grunnhvötunum. Hinsvegar þurfa hundar ekki að parast til að þeim líði vel og tíkur þurfa ekki að eignast hvolpa til að þær verði ánægðar. Þessar gömlu klisjur eru ótrúlega lífseigar og valda því að allt of margir óvelkomnir hvolpar koma í heiminn.

Hundar hafa ekki rökhugsun, þ.e. þeir skilja ekki orsök og afleiðingar. Þeir lifa heldur ekki kynlífi eins og mannfólkið, með tilheyrandi tilfinningum. Pörun hreinræktaðra hunda á að einskorðast við fyrirfram ákveðna hunda, sem eigandi tíkar og rakka hafa sammælst um. Allt annað stríðir gegn góðum gildum og venjum í hundarækt.

„Merkingar”
Rakkar hafa tilhneigingu til að merkja sér svæði með því að kasta þvagi. Með því móti senda þeir öðrum hundum skilaboð um að þeir hafi farið um og að þeir „eigi“ tíkina sem er lóða í nágrenninu. Mikill munur er á því hvort hundur þarf að losa sig með því að kasta þvagi, eða hvort hann úðar nokkrum dropum til að „merkja”.

Rakki sem fer með eigendum sínum í heimsókn þar sem tík býr, getur tekið upp á því að pissa innan dyra, heima hjá tíkinni, enda segja frumhvatir hans honum að hann skuli eigna sér tíkina á heimilinu. Þá er talað um að hann sé að „merkja” sér svæði.

Eigandi hundsins ætti að banna honum það umsvifalaust, enda eiga hundar ekkert með að “eigna” sér svæði eða önnur dýr. Það getur hinsvegar reynst þrautin þyngri að stöðva þessa hegðun alfarið.

„Merkingar“ rakka geta orðið hvimleiðar, en eigendur geta stýrt þessari hegðun að nokkru leyti ef þeir vilja, en þurfa þá að sýna mikla árvekni og standa hundinn að verki. Ef allt kemur fyrir ekki og hundur heldur áfram að „merkja” getur eitt ráðið verið að klæða hann í sérstakar buxur. Hundurinn hættir ekki endilega þessari háttsemi þótt hann sé í buxum, en húsgögn og aðrir húsmunir haldast þó þurrir og hreinir.


© Halastjörnu-ræktun. Allur réttur áskilinn.
Vinsamlegast virðið höfundarrétt og getið heimilda ef þið notið efni af síðunni.
Ef þú rekst á mynd sem varin er af höfundarrétti, vinsamlegast tilkynntu okkur það og við fjarlægjum myndina eins fljótt og auðið er.
Ef þú hefur ábendingar um það sem betur mætti fara á síðunni okkar, þiggjum við góðar ábendingar með þökkum.
Vefsíða: Anja B. Kristinsdóttir